top of page

Birt efni

„Hvað er eðlilegt að stunda kynlíf oft í mánuði?” spyr 59 ára karl. Hann, líkt og fleiri lesendur, sendi mér þessa spurningu í gegnum spurningaboxið sem er að finna neðst í öllum greinunum hjá mér.


Sumar spurningar fæ ég aftur og aftur, frá lesendum þessa pistils, og frá skjólstæðingum í viðtölum. Ein af þessum spurningum er; „Erum við að gera það nógu oft? Hvað eru aðrir að gera það oft? Hvað er eðlilegt?”


Sannleikurinn er samt bara þessi; Það er ekkert eitt rétt svar! Hversu oft par stundar kynlíf segir ekki endilega til um hversu gott kynlífið er. Sum pör stunda kynlíf oft í viku og eru sátt með sitt kynlíf á meðan önnur stunda kynlíf 1 -2 í mánuði og eru alveg jafn ánægð.


Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Lesendur eru hvattir til þess að senda Aldísi spurningar í spurningaformi neðst í greininni.


Frekar en að mæla gæði kynlífs út frá því hversu oft þið stundið kynlíf er betra að mæla það út frá unaði. „Pleasure is the measure” eins og Emily Nagoski bendir á bók sinni Come Together: The Science (and Art!) of Creating Lasting Sexual Connection (2024) sem fjallar um kynlíf para í langtímasambandi. Frekar en að bera þitt samband saman við önnur myndi ég spyrja þig og maka þinn: Hversu ánægð eruð þið með kynlífið sem þið stundið?


Í hlaðvarpsþættinum Kynlífið fjölluðum við Indíana Rós, kynfræðingur, nýlega um kynlíf og langtímasambönd. Um þetta málefni höfðum við svo mikið að segja að efninu var að lokum skipt niður í tvo þætti. Hlustið endilega á bæði hluta 1 og 2.


Kynlíf í langtímasambandi


Það er skiljanlegt að vera forvitin um það hversu oft önnur pör stunda kynlíf í mánuði eða hvað sé eðlilegt. Pör sem eru óánægð með það kynlíf sem þau eru að stunda verða oft uppteknari af kynlífi en pör sem eru ánægðari. Ef þú ert að bera saman eigið kynlíf við annarra vegna þess að þú ert óánægður með það hversu oft þið stundið kynlíf er gott að skoða nokkra þætti.


Talið saman um kynlíf


Pör sem tala um kynlíf sitt eru almennt kynferðislega sáttari og líklegri til að fá fullnægingu í kynlífi. Hversu oft langar ykkur að stunda kynlíf? Hver á oftast frumkvæði? Það getur hjálpað að finna ólíkar leiðir til að eiga frumkvæði og gera það þannig að bæði upplifi sig örugg í því hlutverki. Hversu ánægð eru þið með kynlífið? Myndu þið vilja að kynlífið ykkur væri fjölbreyttara eða öðruvísi?


Taktu ábyrgð á eigin kynlöngun


Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á okkur sem kynveru. Kynlöngun í langtímasamband er oftast ólík kynlönguninni sem við finnum fyrir í byrjun sambands. Hvenær kviknar á kynlöngun hjá þér? Hvað ertu oftast að gera þegar þú finnur fyrir kynlöngun? Þegar við skiljum betur hvað við þurfum til að kveikja á kynlöngun er auðveldara að komast þangað!


Byrjaðu á unaði og svo kemur kynlöngun


Frekar en að hugsa að fyrst þurfir þú að finna fyrir kynlöngun til að vera tilbúinn fyrir unað, er oft hjálplegra að snúa þessu við. Með því að setja fókus á unað, sem getur verið kossar, snerting, að liggja hlið við hlið, nudda eða strjúka hvort öðru náið þið að snúa þessu við. Þegar við byrjum á unaði getum við séð hvort kynlöngun kvikni smátt og smátt, auðvitað alltaf án þess að það sé krafa um kynlöngun eða kynlíf.


Kynntu þér þínar bremsur og kveikjur


Algjört lykilatriði er að kveikja á þér fyrir þig! Hvað kveikir í þér? Hvað slekkur á þér? Gerðu meira af því sem kveikir á þinni kynlöngun og reyndu að draga úr því sem slekkur á henni! Það er ekkert eitt ráð sem virkar fyrir okkur öll. En það er skemmtilegt ferðalag að finna út úr því hvað eykur löngun og unað! 


Kveikjur geta verið lykt, snerting, heit skilaboð, erótísk bók, fatnaður, slökun, tilfinningaleg nánd, að sjá eitthvað sem þér finnst sexí eða spennandi! Bremsur eru síðan allt það sem slekkur á kynlöngun eins og pressa, vond lykt, mikið drasl, verkir, skortur á tilfinningalegri nánd, vanlíðan, að upplifa ójafnvægi í sambandinu, þreyta og streita.

Því betur sem við þekkjum okkur og okkar þarfir því auðveldara er að flæða úr hversdeginum yfir í nánd og unað! Ég skil vel að mörg séu forvitin um það hvort þeirra kynlíf sé eins og annarra en þegar uppi er staðið skiptir í raun bara máli hvort þið séuð ánægð!


Gangi þér vel <3


 
 

Spurning barst frá lesenda: Ég er 38 ára maður sem hefur aldrei átt maka eða upplifað kynlíf. Ég sé sjálfan mig ekki sem kynveru, hef enga reynslu og hef enga trú á því að nokkur kona muni einhvern tíma vilja mig. Sem ég veit að er sjálfrætandi spádómur. Veistu um leið út úr þessum vítahring?


Þú ert þegar byrjaður á nýrri vegferð! Út frá spurningunni sé ég að þú ert farinn að átta þig á því að þessi vítahringur byggir ekki á staðreyndum og heldur aftur af þér í samskiptum við konur. Þegar þú trúir því að enginn muni vilja vera með þér er ólíklegt að þú leggir þig fram við að kynnast öðrum sem gerir það að verkum að það sem þú óttast rætist að lokum. Þú endar einn og hefur um leið sannað kenninguna um að enginn vilji þig!


Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.


Stundum er vegferðin sjálf verðmætari en lokaniðurstaðan


Þessi nýja vegferð snýst ekki eingöngu um lokaniðurstöðuna; að kynnast konu, byrjar að stunda kynlíf eða stofna til sambands. Frekar en að einblína á það að finna réttu manneskjuna er mikilvægt að kynnast þér sjálfum, þínum áhugamálum og styrkja þína sjálfsmynd. 

Það að njóta þess að vera í félagslegum aðstæðum og kynnast nýju fólki snýst ekki eingöngu um rómantískar tengingar heldur einnig um vellíðan og skemmtileg samskipti við allskonar fólk. Djúp og góð tengsl eru dýrmæt þó svo að þau þróist ekki yfir í kynferðislega eða rómantíska nánd.


Síðan er eitt… hvað þýðir það að vera kynvera? Kynverur eru allskonar og það er eðlilegt! Sum eru mjög kynferðislega virk en önnur ekki. Sum byrja snemma að stunda kynlíf og önnur seint. Sum hugsa mikið um kynlíf en önnur ekki. Sum þurfa mikla tilfinningalega tengingu við einstakling áður en kynferðislegur áhugi kviknar á meðan önnur finna strax fyrir kynferðislegum áhuga. Allt eðlilegt!


En hvað skal gera ef sjálfrætandi spádómur (e. self-fulfilling prophecy) heldur aftur af þér?


Það er svo glatað þegar óhjálplegar hugsanir fá að stýra ferðinni og leiða þig að þeirri niðurstöðu að enginn vilji þig. Frekar en að leyfa þeim að leiða þig að þessari niðurstöðu skaltu skella þér í rannsóknargírinn og gera þína eigin tilraunir! Því fyrr sem þér verður hafnað því fyrr kemstu að því að það er sjaldan eins hrikalegt og þú hafðir ímyndað þér.


Hér eru nokkur ráð sem vonandi nýtast á þessari vegferð:


  • Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir mynstrinu – Átta sig á því að þessi neikvæða hugsun er ekki staðreynd heldur lært viðhorf sem er að hafa áhrif á þína hegðun.

  • Endurskrifaðu söguna sem þú segir sjálfum sér – Í stað þess að hugsa „Engin kona mun vilja mig,“ má prófa að hugsa „Ég hef ekki enn upplifað samband, en það þýðir ekki að það sé ómögulegt.“

  • Æfa sig í að því að nálgast fólk án þess að láta óttann um höfnun stjórna sér – Fara í aðstæður þar sem þú getur kynnst fólki en án þess að setja pressu á þig um að kynnast einhverri strax. Að upplifa sig verða sjálfsöruggari eða smátt og smátt betri í samskiptum er flottur árangur!

  • Hvar er best að kynnast öðrum? Það er þitt rannsóknarefni að komast að því! Eru það stefnumótaöppin? Skrá sig á salsanámskeið? Finna gönguhóp? Hjólahópur? Kór? Fara í sömu sundlaugina nokkrum sinnum í viku? Tónleikar? Listaopnanir? Skrá sig á námskeið? Fara í nám? Sækja mótmæli eða pólitíska viðburði? Skrá sig í framboð fyrir næstu kosningar? Hestamannska? Bíó? Spilahópar? Pöbb quiz? Íþróttaviðburðir? LARP? Cosplay? Í gegnum vinnuna? Áhugamál? Sköpun? Hjálparstarf? Björgunarsveit? Skátana?

  • Byggja upp sjálfsöryggi í litlum skrefum – Leyfðu þér að kynnast eigin líkama og kynverund í rólegheitum. Þegar það kemur að kynlífi er sennilega best að vera ekki að þykjast hafa reynslu sem þú hefur ekki. Best er að fara rólega og taka þetta í litlum skrefum. Þú þarft að gefa þér tíma/rými til að kynnast þér sem kynveru og prófa þig áfram án þess að hafa reynslu!

  • Leita sér stuðnings ef þörf er á – Tala við fagaðila eða fólk sem skilur þína líðan. Stundum er sjálfsmyndin það föst í þessu mynstri að utanaðkomandi stuðningur getur hjálpað til við að sjá hlutina í nýju ljósi.


Annars minni ég á punktana mín í pistlinum Þreyttur á stefnumótaöppum: „Hvernig fer ég að því að kynnast fólki?“ sem nýtast þegar þú ferð af stað að kynnast fólki í raunheimum:


Gangi þér vel <3



 
 

Spurning barst frá lesenda: „Eftir að hafa endað 3 ára samband með fyrrverandi kærasta mínum finnst mér ómögulegt að nálgast kynlíf með öðru fólki. Sambandið var ekki að neinu leyti ofbeldisfullt en samt er það eins og að leggja höndina á heita hellu að hugsa um nánd með öðru fólki. Hvað get ég gert í þessu?“ - 31 árs karl.


Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.


Við höfum flest gengið í gegnum ástarsorg en vissulega er mjög misjafnt hvernig við upplifum hana. Nú veit ég lítið um sambandið eða hvernig það endaði en margt getur valdið aukinni vanlíðan í kjölfar sambandsslita. Það að hafa upplifað svik eða skyndileg sambandsslit getur gert það að verkum að þú þurfir lengri tíma til að jafna þig. Síðan getur það verið mjög sárt að fylgjast með fyrrverandi á samfélagsmiðlum, hvað þá ef hann er kominn í nýtt samband eða farinn að deita!


Þegar við höfum nýverið gengið í gegnum sambandsslit er ekki skrítið að viðvörunarkerfið innra með okkur fari í gang við það eitt að hugsa um nýjar tengingar. Það hljómar eins og viðvörunarkerfið þitt sé að spyrja þig: „Ertu alveg viss? Þetta endaði ekki vel síðast.“


Í langtímasambandi er kynlíf oftast með manneskju sem við treystum og okkur líður vel með. Kynlíf með nýju fólki sem við þekkjum lítið eða ekkert veitir ekki endilega sama öryggið eða sömu nándina. Það gæti verið gott að staldra við og skoða hvort þú þurfir að byggja fyrst upp traust og tengingu við manneskju áður en þú stundar kynlíf með viðkomandi. 


Til er hugtak sem nær utan um það þegar nauðsynlegt er að tengjast manneskju tilfinningalega áður en kynferðislegur áhugi kviknar. Hægt er að lesa sér til um demisexual ef það er eitthvað sem þér finnst passa.


Hér koma almenn ráð sem vonandi nýtast þér við að koma þér af stað aftur:

Gefðu þér tíma! Það liggur ekkert á að byrja að deita eða stunda kynlíf. Stundum dettum við í samanburð við fyrrverandi, eða aðra, og förum að setja pressu á okkur. 

Pressa er ekki sexí.. hvort sem við setjum hana á okkur sjálf eða aðrir gera það.

Byrjaðu smátt. Þegar viðvörunarkerfið fer í gang er mikilvægt að leyfa því ekki að stjórna ferðinni heldur taka lítil skref til að ögra! Þá er gott að taka skref sem þurfa ekki að leiða neitt lengra. Til dæmis spjall, daður eða að mynda augnsamband við einhvern sem þú laðast að!


Sennilega koma allskonar hugsanir upp! Hvað ef þessi særir mig? Hvað ef þetta klikkar? Það að deita getur verið allskonar en það er mikilvægt að leyfa ekki þessum hugsunum að stýra ferðinni eða ákveða hlutina fyrir fram. Taktu eftir hugsuninni og haltu svo þínu striki.


Eitt sem er gott að hafa á bakvið eyrað. Þegar þú skoðar þín fyrri sambönd tekur þú eftir einhverju mynstri? Stundum löðumst við að fólki sem kemur ekki vel fram við okkur eða er ekki tilfinningalega til staðar fyrir okkur. Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um þetta og vinna í því að brjóta þetta mynstur upp. Prófaðu að deita einhvern sem er mjög ólíkur öllum þínum fyrri mökum.


Ef illa gengur að róa viðvörunarkerfið er gott að skoða málin aðeins dýpra. Að vera óöruggur er eðlilegt en með tímanum ætti að draga úr því óöryggi eftir því sem þú ferð oftar inn í þær aðstæður sem þú óttast. Talaðu við einhver sem þú treystir um þessa líðan.


Ef eitt leiðir að öðru og þú ert allt í einu farinn að spjalla við einhvern er mikilvægt að ræða það hversu hratt þú ert tilbúinn að fara. Gefðu þér svigrúm til að taka hlutina rólega. Frekar en að finnast þú strax þurfa að vera tilbúinn í nánd og kynlíf má líka fara hægt og byggja upp tilhlökkun og spennu!


Það að byrja að deita aftur eða kynnast fólki upp á nýtt er mjög berskjaldandi. Mörg tengja við það að erfitt getur verið að fara aftur af stað eftir sambandsslit og er þá mikilvægt að gefa sér tíma og rými til að vinna úr fyrri reynslu. Mátt líka skoða hvort það henti þér betur að fara hægt og tengjast fólki áður en þú ferð að stunda kynlíf með því!


Gangi þér vel <3


 
 
bottom of page